Lagnir

Einn af lykilþáttum þess að vera með heilbrigt tölvukerfi, er að netkerfið sé samkvæmt stöðlum. Netbúnaður og lagnir eru yfirleitt fjárfestingar til lengri tíma en tölvubúnaður. Skiptir þá máli ákveðin framsýni, að notast við aðferðir og staðla sem tryggja nýtingu netbúnaðar og nettengingar, og til að styðja við rekstraröryggi. Dæmi um mistök sem eiga sér stað eða slæma siði, er þegar gamlar netlagnir eru framlengdar. Sé slíkt stundað vinnur tíminn ekki með okkur og á endanum er setið uppi með ónýtt lagnakerfi. Þegar bæta þarf við nettenglum eða færa til, er best að lögð sé ný órofin lögn frá netskáp að tengli, úr því lagnaefni sem best sinnir netbúnaði dagins í dag sem og næstu kynslóð. Séu aðrar lagnir á sömu lagnaleið orðnar úreltar, samsettar og í þessháttar ásigkomulagi, er þess virði að velta fyrir sér kostum þess að nota tækifæri og endurnýja þær í leiðinni. Núverandi hraði á staðarnetum 1Gbit/s og öll netkort dagsins í dag gerð fyrir amk. 1 Gbit/s. En 10 Gigabit staðarnet eru þegar komin, og til þess að sá hraði náist truflanalaust, verður að nota réttar aðferðir og efni við lagnavinnu. Við útboð á lagnavinnu við netlagnir, þarf að vera krafa um amk. Cat6A lagnir (takið eftir bókstafnum A í endann).  Ekki Cat5e eða Cat6. Alltaf ætti að gera kröfu um bandbreiddarskýrslu við verklok.

Ég geri mig ekki út fyrir lagnavinnu, en ég þjónusta flest allan búnað sem notast við netlagnir og veit af fenginni reynslu hversu mikilvægt það er, að netlagnir séu sem best búnar til að þjóna tilgangi sínum. Þessvegna hef ég tekið saman smá pistil sem fróðlegt er að lesa fyrir kaupendur netlagna.

Byrjum á töflu sem lýsir einkennum mismunandi Cat netlagna:

Gerð (Nafn) Hámarks tíðni Hámarks lengd Hámarks gagnaflutningur Tengi Lýsing
Category 5e (Class D) 100MHz 100m 1Gbps RJ45 Gamlar lagnir, enn í notkun en löngu hætt að leggja
Category 6 (Class E) 250MHz 100m (37m) 1Gbps 100m og 10Gbps 37metra RJ45 250Mhz í Cat6 vs 500Mhz í Cat6A. Notið frekar Cat6A
Category 6A (Class Ea) 500MHz 100m 10Gbps RJ45 Yfirleitt skynsamlegasti kosturinn í netlagnir. Tvöfalt meiri bandbreidd in í Cat6, og miklu minna crosstalk (truflanir milli víra)
CAT7 (Class F) 600MHz 100m 10Gbps GG45 og TERA Alltaf skermaður. Grennri en Cat7a og auðveldari að meðhöndla, en viðkvæmari fyrir truflunum en Cat7a. Cat7 hefur átt erfitt uppdráttar vegna þess að hann styður ekki Rj45 fór svo að framleiðendur netbúnaðar hunsuðu GG45 og Tera og settu traust sitt áfram á Rj45, og þar með Cat6A og nú Cat 8.1. Cat7 er ekki viðurkenndur staðal af TIA (Telecommunications Industry Association)
Cat7a 1000MHz 100m 10Gbps GG45 og TERA Alltaf skermaður. Auka skermun, talsvert sverari en Cat7 (Class F). Eins og með Cat7 Class F þá þarf hér önnur tengi en rj45, netbúnaður í dag er og verður ekki framleiddur með GG45 eða Tera. Það er best að gleyma þessum tveimur tegundum Cat7 og Cat7a og halda sig við Cat6A eða fara beint í Cat 8.1 þar sem lagnir þurfa ekki að vera lengri en 30 metrar.
Cat8, 8.1 og 8.2 1600-2000MHz  30m 40Gbps  RJ45 (Cat8.1) Alltaf skermaður. Var hannaður með gagnaver í huga. Má hafa í huga þegar horft er til framtíðar td. í byggingum með mikla fjárfestingu í lögnum,  og um 30metra hámarks lagnalengd. Ef útlit er fyrir að mestallar lagnir verði innan við 30 metra langar, þá er 8.1 efnið, annars skal nota Cat6A. Sá sem leggur lögn í dag, og vill ekki þurfa að skipta um lagnir þegar búnaður fer að gera kröfur um 40Gbps, notar þetta.

Verum framsýn í lagnavinnu.

Í dag árið 2018 er réttast að nota Cat6A, en munið að framsýni borgar sig á endanum og etv. verður þér hampað sem hetju eftir 20 ár að hafa lagt það nýjasta sem var í boði. Fiber to the office (FTTO) er ljósleiðaralausn sem er að ryðja sér rúms sem skrifstofunetlagnir í stærri byggingum en yfirleitt þarf Cat lagnir með, vegna þess að endabúnaðurinn tengist með RJ45.

Cat5 er að verða 30 ára gamall staðall. Cat5e kom 2001 og er þá þegar þetta er skrifað, 17 ára gamall staðall (mars 2018). Cat6A kom 2008, Cat7 kom 2010, Cat7a kom 2013, Cat8 kom 2016 og er nú þegar orðinn 2 ára gamall staðall. Það er ekki þar með sagt að þú getir labbað út í búð og verslað Cat8.1 efni og fylgihluti. Verslanir á Íslandi í dag flytja inn það sem rafvirkjar þekkja, og td. virðast Rönning, Reykjafell og Ískraft ekki með nýrra en Cat6a á vefsíðum sínum þegar þetta er skrifað, en geta alltaf sérpantað. Þá er orðið mjög algengt í dag að fólk, einfaldlega panti sjálft að utan hverskyns vörur. Munið að það er lítill tilgangur að leggja lögn úr góðu lagnaefni, en nota svo röng vinnubrögð eða rangan patchpanel. Allt þarf að vera í sama staðli og frágangur samkv. staðlinum til að truflanafrítt umhverfi fáist. Þó svo verktakinn sjái með einhverjum hætti að samband náist á lögn, og allt sé snyrtilega frágengið, segir það ekkert um gæði frágangs. Ákveðin verkfæri þarf og þekkingu til að greina truflanir á netlögn. Fyrsta skrefið er að fara alltaf fram á bandbreiddarmælingu sem framkvæmd er með þess til gerðum mælitækjum. Dæmi um slíkt er DSX-8000 mælitækið frá Fluke. Það er aðeins 8 sekúndur að skila gera skýrslu um Cat6A lögn, og 16 sekúndur með Cat8 lögn. Þetta er í raun fyrsti mælirinn sem vinnur með Cat 8 lagnir. Verðið um eina milljón krónur erlendis. Allir verktakar sem selja sig út í að leggja og ganga frá netlögnum ættu að eiga eða hafa aðgang að sambærilegum mælum. Að skila lögn til kaupanda án þess að skila bandbreiddarskýrslu, er eins og að pípari skili pípulögnum án þess að hafa hugmynd um hvort hún virki 100% eða hreinlega leki.

Fyrir þá sem skilja ensku betur: The Cat6A doubles data transmission bandwidth, from 250 (Cat6) to 500 MHz (Cat6A); decreases the chance of crosstalk interference; and provides superior reliability and transmission speeds through greater lengths of cable. 

Svo er áttan, Cat8:

Staðall class  Hámarks tíðni Standards body Svæði 25GBASE-T 40GBASE-T Plug-compatible
with RJ45 jacks
8 Cat.8 link 2 GHz ANSI/TIA USA  Já  Já
8.1 I 2 GHz ISO/IEC Allstaðar  Já  Já  Já
8.2 II 2 GHz ISO/IEC Allstaðar  Já  Já Nei

mfp8-bg.jpg

í Cat8.1 er 30 metra hámarkslengdin á link, sem að er deild niður í 24 metra af órofnum kapli, og svo max 3 metra fyrir patch snúrur á báðum endum.
Linkur má vera með tveimur tengingum (sem þýðir engin samsetning). Það sem er skemmtilegt við Cat 8.1 er að hann styður Direct Connect, eða „end-to-end“ linka. Semsagt það má með réttum tengjum og vinnubrögðum, tengja saman td. switcha eða netþjón með allt að 30 metra snúru, án þess að patcha í panel. 

ISO/IEC 11801-(1-6) staðallinn kom út í þriðju útgáfu í nóvember 2017. Hann greinist í 6 hluta. 11801-1, 11801-2, 11801-3, 11801-4, 11801-5, og 11801-6.
1 er um almennar kröfur fyrir twisted-pair og ljósleiðara. 2 er fyrir skrifstofubyggingar. 3 er fyrir iðnað. 4 fyrir einbýlishús. 5 fyrir gagnaver. 6 fyrir kerfi líkt og stjórnkerfi húsa, brunakerfi, hitastýringar ofl.
Ef þú er eigandi byggingar, og í þeim fasa að fara ráða verktaka í lagnavinnu, vertu viss um að hann vinni samkv. ISO/IEC 11801-(1-6).

Þá höfum við það, Cat6A er er rétta efnið hvar sem er (og búið að vera málið um tíma). En bíðum við, það eru til nokkrar útfærslur, með eða án skerms, með eða án kjarna, og einnig til með hvert par skermað. Hvað er nú þetta?

Það eru aðalega tvær mismunandi týpur af Cat6A lögnum notað í dag, skermað og óskermað, og oftast talað um F/UTP og U/UPT þar sem það síðarnefnda er óskermað.

Sumir nota hugtökin eða skammstafanirnar FTP og UTP til að skilja á milli skermaðra og óskermaðra lagna, en samkvæmt ISO/IEC stöðlum er það ekki rétt. Fyrsti stafurinn segir til um tegund á skermun í heild sinni, á meðan seinni stafurinn segir til um tegund skermunar á hverju pari þannig að F/UTP og U/UTP er auðveldasta leiðin til að skilja á milli tegunda þessara lagna.

Semsagt:

Cat6A U/UTP þýðir að lögnin er gerð úr 4 óskermuðum snúnum pörum (twisted-pair) og engin ytri skermun.
Cat 6A F/UTP þýðir að lögnin er gerð úr 4 óskermuðum snúnum pörum, EN hefur ytri skermun. Þetta er skermaður kapall!
Það eru einnig til S/FTP (screened/foiled twisted pair). Cat7 lögn er þannig með öll pör skermuð, OG hefur ytri skerm.

Cat6a U/UTP er smíðaður á ákveðinn hátt til að takmarka crosstalk og ANEXT. Crosstalk er óvinur netlagna. Crosstalk þýðir að truflanir berast á milli para. ANEXT eru truflanir frá samliggjandi lögnum, td. rafmagnslögnum. Það sem er gert í Cat6A U/UTP til að takmarka þessar tvær tegundir af truflunum, er að leiðararnir eru sverari (amk 23AWG), snúningur paranna er þéttari, bilið milli para er meira, meira loft í kaplinum, kjarnir í honum miðjum til að skilja að pörin, og kápan er þykkri. Þetta gerir Cat6A U/UTP að mjög sverum kapli, og í engu uppáhaldi hjá rafvirkjum sem bölva ævinlega þegar þeir vita að gerð er krafa um þetta. Það er eðlilegt þeir bölvi, þá eru einnig eðlileg viðbrögð að hunsa það.

Cat6A F/UTP er gerður á svipaðan hátt, en er einnig með ytri skerm, utanum allt saman, undir kápunni.

Skermunin, eða skermurinn virkar sem vörn gegn því að EMI(Rafsegultruflanir)/RFI(truflanir frá útvarpstíðnum) berist yfir í pörin frá samliggjandi lögnum. Skemurinn endurkastar truflunum frá ljósabúnaði, vélum og öðrum hlutum sem framleiða EMI, og á sama hátt endurkastar truflunum frá farsímum og þráðlausum sendum. Þess að auki takmarkar skermunin það að tölvumerki „leki“ frá lögninni.

Ef þú ert að nota skermaðan F/UTP Cat6A, þarf að nota samhæfan skermaðan tengil/patchpanel. Á sama hátt, óskermuð lögn á að vera notuð með óskermuðum tenglum/patchpanel.

Ákvörðunin um hvaða týpu af Cat6A á að nota af þessu í hverju tilfelli, byggir á nokkrum hlutum eins og.

  • Er sérstaklega erfitt að koma sverum lögnum fyrir í þessu tilfelli?
  • Skiptir kostnaður mestu máli?
  • Velja þarf efni út frá staðsetningu lagna með tilliti til brennanleika og hvort lögnin megi gefa frá sér eitraðar lofttengundir við bruna.
  • Veðrátta, umhverfishiti
  • Er mikil eða lítil hætta á truflunum, EMI og ANEXT?
    – Öll rök eiga rétt á sér, en alltaf skal haft að leiðarljósi, að lögnin verði með sem lengast líftíma, og styðji strax 10Gbit/s (10GBASE-T) á 100 metra lögnum.

Þetta er bara brot af mismunandi útfærslum af twisted pair köplum. Það þarf að velja rétta efnið með tilliti til aðstæðna og krafna.

Hér er ágætur Category 6A hjá Ískraft, sver og óþægilegur í ídrætti, en vandaður og halógenlaus.: https://www.iskraft.is/netverslun/fjarskiptabunadur/tolvulagnir/cat6a-lagnir/?itemid=6089139

Stundum eru gögn flutt með rafleiðurum, stundum með ljósleiðurum, og stundum í gegnum loftið þráðlaust, eftir því sem hentar hverju sinni. Ekki þarf í skilningi laganna sérstaka menntun til að leggja netlagnir, hvort sem um ræðir ljósleiðara, Cat6A eða þráðlaust. Það segir sig nokkuð sjálft, það er ekki lögverndað fag að draga gagnaflutningsþræði í gegnum rör frekar en aðra spotta eða snæri. Þegar tilgangurinn er gagnaflutningur en ekki orkuflutningur, verður það ekki lögverndað fag, að taka netleiðslu og setja hana innan í rafmagnsrör eða barka. Í þeim tilvikum sem gögn eru flutt með rafleiðurum, þá Cat6A lögnum, finnst mér mjög vanta upp á annarsvegar að fólk skilji muninn á rafeindavirkjum og rafvirkjum, og að fólk sem stundar að leggja netlagnir, sæki endurmenntun og sýni þessu áhuga. Fólk virðist halda að rafvirkjamenntun tryggi að viðkomandi hafi þekkingu netmálum. Raunin er sú, að netmál eiga lítið skylt með fagi rafvirkja, netmál falla undir upplýsingatækni. Netlagnir falla undir netmál og eru þá partur af upplýsingatækni og rafeindavirkjun þar sem þetta er smáspenna. Tölvumenn eru innan geira upplýsingatækninnar. Þar af leiðandi er mjög skiljanlegt, og eðlilegt að tölvumenn og rafeindavirkjar þurfi við og við að koma með athugasemdir þegar rafvirkjar eiga við tölvulagnir. Í dag er raunveruleikinn sá, að flestir tölvumenn og rafeindavirkjar sem ég þekki sjá hag sinn ekki í að sinna ídráttarvinnu, og velja yfirleitt að rafvirkjar sjái um slíkt fyrir þá, enda eru rafvirkjar vanir þegar kemur að því að draga snúrur í rör (háspennulagnir til orkuflutnings).

  • Háspenna og orkuflutningar: Rafvirkjar. Dæmi: Ljósastaurar, eldavélar og rafmagnstöflur.
  • Lágspenna og gagnaflutningar: Rafeindavirkjar og tölvumenn. Dæmi: Netskápar, netlagnir og netbúnaður
  • Smíðavinna: Húsasmiðir. Dæmi: Gat í vegg fyrir smáspennulögn.

Mikilvægt er að velja lausnir sem henta hverju sinni. Td. þegar notaðar sömu lagnaleiðir til gagnaflutnings og orkuflutnings, er mikilvægt að kynna sér mismunandi gerðir af netlögnum og velja það sem hentar með tilliti til hættu á truflunum (EMI og ANEXT).

Einnig þarf að hafa í huga brennanleika. Algengar netlagnir eru eldfimar og gefa frá sér eitraðar lofttegundir í bruna. Plenum lagnir eru eldtefjandi og gefa frá sér minna magn eitraðra lofttegunda. Veljið halogenlausar netlagnir amk. innandyra og á stöðum þar sem má gera ráð fyrir að lofti frá lögnunum að fólki, td í gegnum rör og stokka. Það þarf ekki að verða tendrun, því við mikinn hita losna efnasambönd út í andrúmsloftið. 

Munið, framsýni borgar sig.

Kip, mars 2018.

Næst mun ég skrifa um þá mismunandi staðla sem sem eru í gangi í POE tækninni, eða Power Over Ethernet. Þangað til, hér er mynd til að átta sig a POE (802.3af) vírun á Gbit Ethernet:

Gagnaflutningur (TxRX) á öllum átta vírunum, og POE straumur með gagnaflutning á fjórum þeirra.

Fyrir þá sem þyrstir að vita meira um netstrengi í skrifstofuhúsnæði, Fiber to the office og Cat6A, smellið hér til að lesa lokaskýrslu (2019) Vilbergs Tryggvasonar nema í rafiðnfræði hjá Háskóla Íslands.

Þar kemur m.a. fram eftirfarandi: „Á tímum þar sem stöðug krafa er um minni efnisnotkun, meiri nýtni á öllu hráefni og orkugjöfum, er FTTO lausn sem varðar veginn inn í framtíðina. Krafa um áframhaldandi hraða þróun í uppbyggingu netkerfa og aukna getu til gagnaflutninga leiðir af sér öflugri endabúnað en er á markaðnum í dag. Það leiðir aftur af sér kröfu um að strengirnir nái að þjónusta endabúnaðinn nægjanlega vel. Í þessu tilfelli eru Cat strengirnir því ekki samkeppnishæfir til framtíðar. Það er vegna takmarkanna strengjanna sjálfra. Á meðan ljósleiðarakerfi eru sem gluggi inn í framtíðina sem er að opnast meira og meira má líkja Catkerfum við glugga úr fortíðinni sem smámsaman er að lokast.“